top of page
Writer's pictureIndíana Rós

Þegar typpið er ekki að typpa eins og það á að typpa




Þessi pistill birtist fyrst á Vísir.is


Typpi eru einhvernvegin bara út um allt, krotuð á veggi og ekki er hægt að sjá eggaldin án þess að hugsa til þeirra. Fólk sendir typpamyndir, stundum óumbeðnar og óvelkomnar, eins og það sé skyldugt til að deila með heiminum einhverjum boðskap sem mun betrumbæta líf allra. Ekki eru þó allir endilega svona súper-ánægðir með typpið á sér, hvað þá ef eitthvað er ekki alveg eins og það var, eða ætti að vera.

Kannski hefur kynlíf eða að rúnka sér aldrei verið neitt sérstaklega þægilegt og næs, eða var það einu sinni, og svo breyttist eitthvað.

Þú ætlar samt ekki að tala við neinn um þetta. Ekki séns! Nei,nei við tölum ekki um svona. Þú skalt bara þjást í hljóði og biðja til æðri máttar að þetta bara hætti af sjálfu sér. Kannski verður fullt tungl bráðum og þá hverfur þetta bara! Séns að það fái læknir að skoða typpið og hvað, setja út á það? 


Jafnvel ætla að fikta eitthvað í því? Hvað ef læknirinn hefur aldrei séð svona áður og bara hóar í alla lækna vini sína til að skoða þetta furðulega dæmi? Hvað ef læknirinn ætlar bara skera typpið af? Allar minningarnar horfnar á einu bretti? Ekki séns!

Líklegast mun vandinn ekki lagast á næsta fulla tungli, og líklegast mun læknirinn ekki bregðast við á fáranlegan hátt (þá bara þakkarðu fyrir tímann og finnur annan lækni).


Hér eru nokkur algeng vandamál sem kunna hrjá elsku typpin og ráðleggingar um hvað er hægt að gera:


Risvandi hjá typpi

Á þessari blessuðu mannsævi munu flest öll typpi lenda í því að díla við risvanda. Risvandi er hreinlega erfiðleiki við að fá eða halda standpínu. Margt margt getur ollið risvanda, en fyrsta skrefið er alltaf að kíkja til læknis til að skoða og fá ráðleggingar og aðstoð ef við á, um t.d hormónatruflun, hjarta- eða æðavanda, krabbamein eða truflun í taugakerfinu.


Nikótín er einnig stór áhrifaþáttur. Nikótín þrengir æðar og hefur áhrif á blóðflæði, og vitið þið hvað þarf að virka vel til að halda og fá standpínu? Jú - æðarnar og blóðflæðið. Þannig meðan þú bíður eftir tímanum hjá lækninum, taktu út eða minnkaðu verulega nikótínið ef þú notar það.

Svo það sem enginn nennir að díla við eða heyra um? Jú, blessuð líðan okkar hefur áhrif. Kortisól, eða stresshormónið okkar, hefur ekki geggjuð áhrif á kynlöngun og risið. Ef þú hefur verið að eiga við langvarandi streitu og álag í lífinu þá er tími til að skoða það. Streitan getur líka valdið því að þú náir ekki að halda standpínu með nýjum maka, eða ef það eru áhyggjur af risinu, eða hver færnin er í rúminu. Þannig það er góð hugmynd að bóka tíma hjá sálfræðingi eða kynlífsráðgjafa, ekki bíða.



Peyronie´s sjúkdómur

„Getur typpið mitt brotnað?’’ er regluleg og algeng spurning í kynfræðslu. Typpi getur ekki brotnað eins og bein brotna, enda ekkert bein þar inni, heldur risvefur. En typpið getur bognað, og það getur verið mjög óþægilegt. Sársaukinn minnkar kannski en með tímanum geta farið að myndast óþægindi og hægt er að þróa með sér Peyronie’s kvillann.

Þetta getur líka gerst án þess að hafa orðið fyrir svokölluðu typpaslysi og aðrir þættir sem hafa þau áhrif en í Peyronie’s myndast ákveðinn skellur í örvef typpisins og typpið verður bogið.

Ef þetta gerist, ætti að bóka tíma hjá þvagfæralækni. Stundum þarf ekkert að gera og vandinn lagast af sjálfu sér, en ef þetta truflar kynlíf og veldur verkjum vill læknirinn kannski grípa til einhverra ráða.


Of þröng forhúð

Hjá nýfæddu fólki með typpi, er forhúðin þétt upp við kónginn og bara lítið op svo að þvagið komist út. Með aldrinum losnar yfirleitt forhúðin og hægt er að draga hana aftur. Með þessu er fylgst í ungbarnaeftirlitinu og oftast ekki mikil vandamál sem fylgja. En svo þegar þau eldast, jafnvel komnir á unglingsaldur og allir í bekknum að tala um hvað sé „næs” að rúnka sér, finnst kannski öðrum það ekkert svo næs.

Forhúðin á að komast niður fyrir kónginn og það á ekki að vera óþægilegt. Ef það veldur óþægindum eða sársauka er kominn tími til að heyra í lækni. Þetta þarf helst að gerast sem fyrst, þannig ef þú ert 15 ára að lesa þetta og tengir, heyrðu í lækni. En það er samt aldrei of seint!

Þetta allt saman og meira til getur haft áhrif á kynlífið. Það er líka hægt að fræða sig meira um alls konar tengt þessu og jafnvel er líka hægt kíkja í sjúkraþjálfun! Í þessum þætti geturðu kannski skilið þig og typpið þitt betur:

62 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page