top of page
Writer's pictureIndíana Rós

Kynfræðsla heima; „Mamma, hvað eru endaþarmsmök?“

Þessi pistill birtist fyrst á Vísir.is 5. Mars 2024.


„Mamma, hvað eru endaþarmsmök?“ spyr krakkinn við eldhúsborðið. Er ekkert heilagt lengur?

„Hvað viltu vita um endaþarmsmök...“ svara ég...

Vonandi ekki neitt...Kynfræðsla hefst þá..


Kynfræðsla er mikilvæg heima

Kaldur sviti. Hjartslátturinn eykst. Hausinn á milljón. Hvernig svara ég þessu? Hvar heyrði krakkinn þetta?

Hvað ef þau spyrja hvar þau voru getin? Hvort þú hafi einhvern tímann fengið klamydíu? Hvar kynntust þið og mamma? Hvenær sváfuð þið fyrst saman?

Átt þú að svara öllu eða er nóg að segja: „einu sinni á Þjóðhátíð 2012“?


Panikkið heldur áfram og munnþurrkur hefur bæst við og allt í einu getur þú ekki talað án þess að röddin sé eins og þú sért aftur kominn í mútur.

Þú getur haldið áfram að kvíða fyrir þessu augnabliki en þú getur líka lesið þessi sex góðu ráð sem gott er að hafa í huga þegar kemur að spjalli um kynlíf við börnin.

Með góðum undirbúningi og æfingu verður þetta mun minna mál en þú heldur.


1. Fræddu þig því kynfræðsla byrjar heima

Taktu þér tíma til að rifja aðeins upp, eða þá læra frá grunni ef þú fékkst ekki mikla kynfræðslu heima eða þegar þú varst í skóla. Það er enginn afsökun fyrir fordómum eða fávisku þegar við höfum allar heimsins upplýsingar fyrir framan okkur, jafnvel í símanum. 

Við þurfum ekki endilega að vita allt áður en barnið byrjar að tala og gæti farið að spyrja en það er til fullt af efni á netinu. Hér er ég til dæmis búin að taka saman fullt af efni sem er áreiðanlegt.

Það er allt í lagi þó að samræður um kynlíf við börnin sín sé vandræðalegt.


2. Hverjar eru þínar skoðanir og hugmyndir um kynlíf?

Hugmyndir okkar um kynlíf geta litað samtalið og haft áhrif á hvort við náum að byggja upp traust. Þær hafa sömuleiðis áhrif á hvort við séum að gefa réttar og gagnlegar upplýsingar.

Til dæmis, ef unglingurinn spyr þig um endaþarmsmök og þín skoðun er að það sé ógeðslegt og þú myndir aldrei gera það, þá ætlar þú samt ekki að svara á þann hátt.

Kannski er það eitthvað sem unglingurinn hefur prófað eða vill prófa einhvern tímann og þá lærir unglingurinn að kannski sé ekkert hægt að tala við þig um pælingar og áhyggjur tengdar kynlífi, því þeim var síðast mætt með skömm. Við viljum geta veitt gagnleg svör þannig að krakkinn sé líklegri til að leita aftur til okkar.


3. Búðu til góðan tíma fyrir spjall

Lífið okkar flýgur fram hjá okkur á hundrað kílómetra hraða og ef við ætlum að bíða eftir rétta tækifærinu fyrir spjall um eitthvað sem viðkemur kynheilbrigði, þá er það líklegast aldrei að fara koma. Settu tíma í dagatalið fyrir þetta eins og allt annað sem við skipuleggjum. Þú getur til dæmis boðið unglingnum á ísrúnt og hlustað á hlaðvarpið Rúmfræði eða Klukkan sex. Þá getur þú líka haft kósý-kvöld og horft á Sex Education eða Big Mouth á Netflix, ýtt á pásu og rætt um umræðuefni sem koma upp í þáttunum.

Fyrir yngri börn getið þið til dæmis lesið saman bækur eins og Allir eru með rass eftir Anne Fiske eða Vertu Þú eftir Ingileif og Maríu Rut.

Mikilvægt er að skapa rólegt umhverfi og þið séuð nokkurn veginn afslöppuð.

Og já, þetta má vera vandræðalegt. Eftir því sem ég kemst næst þá hefur enginn dáið úr því að vera vandræðalegur.


4. Æfðu þig í virkri hlustun

Við erum gjörn á að hlusta til að svara, og erum að búa til svar í hausnum á meðan manneskjan talar í stað þess að hlusta til að heyra það sem manneskjan hefur að segja og vera forvitin.

Já, hvað er það sem þig langar að vita um endaþarmsmök?

Samhliða því að skapa rólegt umhverfi, þar sem þér og krakkanum líður vel, reynum við að mynda öruggt og traust samband með því að tryggja að barnið geti tjáð sig við okkur. Þau mega hafa aðrar skoðanir og langanir en við höfum.

Það er ekki nauðsynlegt að vita allt um endaþarminn.


5. Segjum sannleikann

Til þess að byggja upp traust þá verðum við að svara öllum spurningum heiðarlega. Auðvitað svörum við eftir skilningi og þroska barnsins. Mundu að þú þarft til dæmis ekki að vita nákvæmlega allt um endaþarminn til þess að geta aflað þér upplýsinga og svarað spurningunni.

Við þurfum samt ekki að svara persónulega um okkar kynlíf. Ég held að það sé nánast í hverri einustu kynfræðslu hjá unglingum sem ég fæ eftirfarandi spurningar:

  • „Hvað hefur þú sofið hjá mörgum?“

  • „Hver er uppáhaldsstellingin þín?“

  • „Hvenær svafst þú fyrst hjá?“

Þá er nóg að segja á rólegu nótunum „ég ætla nú ekki að tala um kynlífið mitt því það er eitthvað sem ég vil halda útaf fyrir mig“.


6. Við vitum ekki allt

Það veit enginn svörin við öllu, en líklega er hægt að leita að svarinu eða finna stað það sem hægt er að fá svör. Þú mátt alveg svara „ég veit það ekki, en ég skal komast að því.“ Þá ferð þú og hreinlega gúgglar. Við erum oft betri en börn að átta okkur á hvað eru áreiðanlegar upplýsingar.

Mundu svo, þetta er ekki eitt samtal einu sinni, heldur í gegnum allt uppeldið.

Dragðu nú aðeins inn andann, þú getur hlustað á þennan þátt hér sem fjallar einmitt um kynfræðsluna heima og undirbúið þig betur.

16 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page